Ég ákvað í morgun að drífa mig hingað til Zhouzhuang, pakkaði niður og arkaði út á lestarstöð. Allt gekk vel þar til ég kom á aðallestarstöðina þar sem ég ætlaði að fá miða hingað. Það gekk hálfbrösuglega þar sem drengurinn í miðasölubásnum, sem ætlaður er enskumælandi fólki, beið ekki eftir að ég kláraði að tala heldur þóttist nú alveg vita hvað ég vildi. Ég fór þá í einhvern upplýsingabás þar sem afskaplega elskuleg kona liðsinnti mér með hjálp ungra kínverja sem töluðu hrafl í ensku. Ég átti sem sagt að fara til Suzhou með lest og þar átti ég að taka rútu hingað. Það er skemmst frá því að segja að lestin mín lagði af stað frá Shanghai klukkan 16:30. Þar með var dagurinn náttúrulega á enda runninn eða allt að því.
Þegar ég kom til Suzhou var seinasta rúta til Zhouzhuang farin og nú voru góð ráð dýr. Elskuleg stúlka sem starfaði í sölubás sem seldi auglýsingavarning fyrir Olympíuleikana í Peking 2008, var öll að vilja gerð og hjálpaði mér í hvívetna. Hún fann mann sem vildi keyra mig hingað fyrir 140 rmb. Þetta var ekki leigubílsstjóri með tilskilin leyfi og önnur ung stúlka taldi að það væri hættulegt fyrir mig að fara með honum og sagði mér að hringja í 110 (lögreglan) ef ég lenti í vandræðum. Þetta voru góð ráð þar sem ég komst að því á miðri leið að ég var inneignarlaus og gat ekki hringt neitt.
Þetta endaði á þá leið að ég fékk far með þessum manni fyrir 100 rmb og með í för voru tvær ungar háskólastúlkur. Þetta var ágætis ferð sem tók um 50 mínútur og á leiðinni sá ég ýmislegt athyglisvert.
Þá var ég komin hingað á hótelið og klukkan orðin sjö. Ég hafði fundið þetta hótel á veraldarvefnum og litist ágætlega á það. Hægt að fá herbergi fyrir 300 rmb með allskyns þjónustu. Aðgangi að veraldarvefnum, veitingastað og einnig var tekið fram að hótelið tæki við öllum helstu kreditkortum. Ég hafði því ekki áhyggjur af peningamálunum en annað kom á daginn. Þegar ég ætlaði að borga kom í ljós að þetta hótel tekur aðeins við kínverskum kreditkortum og þar með fóru allir mínir peningar því auk gjaldsins fyrir herbergið þurfti ég að borga fyrir lykilinn líka. Það fæst að vísu endurgreitt þegar ég skila lyklinum.
Jæja, það þýddi ekkert að gráta Björn bónda heldur var arkað af stað í leit að hraðbanka. Ég var orðin býsna svöng og varð því glöð að finna fljótt peningavél. En viti menn. Þessi hraðbanki tók einnig bara við kínverskum kreditkortum! Jæja það þýddi ekkert annað en að leita frekar og ég gekk í tvo klukkutíma um bæinn án árangurs. Á leiðinni fór ég inn í verslun og keypti mér kex og jógurt. Það hefur haldið í mér lífinu síðan.
Ég komst að því á göngu minni að maður þarf að borga sig inn í gamla bæinn sem ég kom hingað til að skoða. Það kostar heilar 100 rmb. Einnig komst ég að því að bankinn opnar klukkan 8 í fyrramálið, sem kom mér skemmtilega á óvart því það er sunnudagur á morgun. Ég komst einnig að því þegar ég kom aftur hingað á hótelið að aðeins er hægt að fá aðgang að veraldarvefnum ef maður er á fjórðu hæðinni! Ég er á annarri hæð.
Dagur 2
Vaknaði við símhringingu klukkan 06:30. Þetta var Drengur bróðir minn að athuga hvort ég vildi fara til Kaupmannahafnar í nóvember. Mikið held ég að hann hafi notið þess að vekja mig á sunnudagsmorgni. Því var fljótsvarað því eina sem ég vona er að eiga fyrir mat ofan í mig þegar ég kem úr þessari Kínaferð. Ekki þarf ég að eiga fyrir fötum því ég held ég hafi alveg afgreitt það á klæðskeramarkaðnum. En... það var gaman að heyra í honum.
Ég ætlaði að vakna klukkan átta en svaf náttúrulega eins og engill til tíu. Maður sefur alltaf svo ljómandi vel eftir að hafa vaknað svona snemma. Dreif mig út að finna bankann svo ég fengi pening. Það er skemmst frá því að segja að ég fann tvo banka en hvorugur vildi taka við kortunum mínum. Bara kínversk kort takk fyrir.
Þá var ekki annað til ráða en að finna ferð heim því ekki átti ég pening til að borga mig inn í gamla bæinn sem ég ætlaði að skoða.
Fékk far með hjólavagni (e. rickshaw) á rútustöðina og far með rútu alla leið til Shanghai. Var komin heim um þrjúleytið.
1 ummæli:
Þetta hefur verið aldeilis ævintýrið maður! USSSSS.... Ferlega eru þeir eitthvað seventies þarna í Zhouzhuang hehehe :)
Skrifa ummæli