föstudagur, febrúar 16, 2007

Á maður ekki að skrifa eitthvað hérna?

Þegar ég var lítil þótti mér afar rómantískt að halda dagbók. Ég reyndi oftar en einu sinni að halda slíkt rit en það fór ævinlega í vaskinn, trúlega sökum skipulagsleysis sem enn háir mér. Þetta hefur greinilega lítið breyst ef marka má iðni mína við þessa síðu.

Er stödd á Akureyri hjá elsku litla Drengnum hennar mömmu sinnar. Nú er klukkan 15:02 og ég hef ekki enn fengið kaffi. Fékk bara Pepsi Max morgunmat og hef reynt að dæla því í mig síðan til að ég fái nú örugglega minn koffeinskammt. Ég gæti náttúrulega rifið mig upp og rölt hér eina 100 metra í næstu kaffisjoppu, en nenni því ekki.

Á laugardag er stefnan tekin á þorrablót í Skagafirði. Ég verð í Lindabæjarliðinu. Sóley Sigmarsdóttir heimasæta á Lindabæ frá Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagafirði bauð mér á þorrablótið og réði mig jafnframt sem fulltrúa sinn í fjöldasöngnum. Mér skilst að ég komi til með að heyja harða baráttu við félaga í karlakórnum Heimi. Það verður létt verk og löðurmannlegt!

Á þorrablóti þessu verða hátt í þúsund manns. Já ég sagði þúsund (1.000,-). Ég geri því fastlega ráð fyrir að á konudaginn verði ég vakin upp á einhverju stórbýlinu með blómum og bónorði.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eruð þið mæðgin í sömu íbúð og skrifist á ? .Þið eruð ekki betri en unglingarnir sem sitja hlið við hlið í partýum og senda sms sín á milli. en það er þetta með letina og hungrið/þorstann.
Lati Geir á lækjarbakka
lá þar þangað til hann dó.
ekki vildi hann vatnið smakka,
var hann þyrstur þó.

Jónína Ingibjörg sagði...

Gunna!
Við erum unglingar!