Skv. Steinu pæju er ekki við hæfi lengur að hafa jólin á blogginu. Eina leiðin út úr þessu er að skapa nýja færslu. Ég er hins vegar svo andlaus (rauðvínslaus kannski) að þetta er ekki auðleyst.
Er búin að lesa Hallgrím, Arnald og Jón Hall. Allt saman fínustu bækur. Arnaldur og Jón Hallur skrifa ágætis krimma og Hallgrímur er fyndinn og háðskur.
Hallgrímur fékk víst miður góða dóma að þessu sinni. Ég er ekki með á hreinu hvað fólst í þessum slæmu dómum (nenni ekki að kynna mér það) en ég skemmti mér hið besta yfir lestri bókarinnar.
Þá var komið að því að dusta rykið af kilju sem ég fékk í bókaklúbbi í haust en hafði ekki gefið mér tíma til að lesa. Mikið assgoti var ég fegin að hafa ekki lesið hana á undan hinum ofantöldu. Þær eru nefnilega þannig að maður klárar eina og byrjar á næstu. Ekkert mál. Þessi, hins vegar, er þannig að maður klárar hana og veit að maður getur ekki lesið aðra bók í bráð.
Þetta er bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Ég er orðlaus yfir ágæti þessarar bókar. Eina sem ég get sagt er: Skyldulesning!
Nú get ég bara varla beðið eftir að lesa meira eftir Jón Kalman (já ég veit ég sagðist ekki getað lesið aðra bók í bráð, en það var hvít lygi) og stefni að því að fá mér Sumarljós og svo kemur nóttin, fyrir inneignarnótuna mína hjá Eymundsson.
Talandi um Sumarljós, þá bauð mamma mér í Þjóðleikhúsið að sjá það verk. Við höfðum báðar gaman að. Áður en við fórum var ég hálffúl yfir að hafa ekki verið búin að lesa bókina áður, en nú er ég fegin. Ég er ekki viss um að mér hefði líkað eins vel í leikhúsinu ef ég hefði haft samanburð við bókina. En það kemur í ljós síðar.
Þangað til:
Lifið heil
föstudagur, janúar 16, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Himnaríki og helvíti er frábær bók, maður kjamsar á hverju orði og ýmist grætur eða hlær.
Himnaríki og helvíti er frábær bók, maður kjamsar á hverju orði og ýmist grætur eða hlær.
Ég hef bara heyrt gott um Karlar sem hata konur... mæli með að þú lesir hana næst.. hún er allavega næst á mínum lista :O)
Skrifa ummæli