þriðjudagur, desember 28, 2004

Jól í Skövde

Það bar svo við á elleftu stundu að ákveðið var að halda jól í Skövde þetta árið. Skövde er fimmtíuþúsund manna háskólabær í Svíþjóð þar sem hann sonur minn stundar svefn með háskólanámi.
Ég mætti sem sagt hingað seinnipart þann 16. desember alveg örþreytt og fyrstu dagarnir fóru að mestu í svefn.... eða svoleiðis. Svo var farið að rápa í bæinn og kíkja í búðirnar, kaupa jólagjafir og það sem til þurfti í jólahaldið. Kom að vísu með eitthvað með mér frá gamla landinu, svo sem hangikjet, laufabrauð, Nóa konfekt, Ora baunir og fleira sem nauðsynlegt þótti.
Fórum að hafa svolitlar áhyggjur af jólamatnum þegar Drengur fór að tala um sænsku svínakóteletturnar sem eru ansi þunnar, magrar og þannig höggnar að þær eru þaktar beinflísum. Það virðast ekki vera svona sælkerakjötbúðir hér eins og í Reykjavík þannig að þetta leit ekki vel út. Á Þorláksmessu fundum við svo sæmilegar kótelettur í Willy's (eins konar Bónus) en ég þurfti samt að skola af þeim flísarnar áður en þær voru eldaðar. Þær reyndust svo bara afar góðar þegar upp var staðið enda hafði ég tekið með mér Paxo rasp að heiman.
Á jóladag var svo stefnan sett á hangikjetið og Drengur bretti upp ermarnar og hóf vinnslu jafnings. Þar sem hann stóð við pottinn og hrærði eins og hann ætti lífið að leysa bað hann mig að hella meira hveiti í pottinn og ég með mínum haukfráu augum rak þau ofan í hveitipokann og sá þar eitthvað sem ekki passaði. Ég horfði í pokann skamma stund meðan ég velti fyrir mér hvað þetta væri sem hann Drengur hefði nú misst ofan í pokann og sá þá allt í einu, mér til mikillar skelfingar, að hið óþekkta tók að hreyfast og á það kom skýrari mynd. Ég stökk eins og hind eina fjórtán metra frá borðinu, baðandi út öllum öngum og öskrandi; ÞAÐ ER MAUR Í HVEITINU!

2 ummæli:

Jónína Ingibjörg sagði...

Maurar hafa verið undirstöðu fæðuflokkur hinna ýmsu kvikinda í gegnum tíðina. T.d. hafa mauraætur ekki þótt neitt verri kvikindi en önnur en nánast eingöngu lifað á maurum og termítum.

Jónína Ingibjörg sagði...

Sko.... athugasemdin hér á undan er ekki sett inn af mér heldur honum syni mínum sem hefur gleymt að breyta einhverju........
við erum sem sagt að nota sömu tölvu :-)