þriðjudagur, desember 28, 2004

Jól í Skövde annar þáttur

Við fengum sem sagt engan jafning með hangikjetinu á jóladag því hveitið fór beinustu leið út í tunnu. Það er ekki svo slæmt að borða hangikjet með Waldorfsalati, soðnum kartöflum og heimalöguðu rauðkáli, svo ég tali nú ekki um laufabrauðið og mysinginn.
Þegar ég vaknaði á jóladag var tekið að snjóa. Fallegt um að litast og jólalegt. En viti menn! Um fimmleytið á jóladag birtist hér í garðinum snjómoksturstæki og hóf að ryðja gangstígana sem á hafði safnast um það bil eins sentimetra lag af snjó. Ég var hissa á þessu bruðli þar sem ég kom ekki auga á að þessi litli snjór gæti hamlað nokkrum för en ekki síst vegna þess að það var jóladagur, einn helgasti dagur á Íslandi en greinilega ekki hér í Svíþjóð! Og ég sem hélt að Íslendingar væru einir norðurlandaþjóða að vinna yfirvinnu.

Hörmungarnar í Asíu eru annars efst á baugi í hérlendum fréttum. Tæland er greinilega mjög vinsæll ferðamannastaður á meðal Svía og því allmargir Svíar sem hafa lent í þessu, á einn eða annan hátt. Það er ekki laust við að maður hafi verið minntur á að vera bara ánægður með sitt.


Engin ummæli: