sunnudagur, maí 08, 2005

Spennufall

Jæja nú er mesta spennan búin. Fyrst voru prófin og svo kom missó. Það var mjög gaman og jafnframt erfitt að skapa verkefni í Evrópurétti. Nánast allar heimildir á ensku og það ekkert svo auðveldri ensku en allt gekk vel að lokum enda frábær hópur saman kominn. Á föstudaginn vörðum við svo herlegheitin fyrir þremur kennurum, viðveruhópi og nokkrum áhorfendum og það gekk bara mjög vel. Við settum upp smá leikþátt til að skýra betur hvað felst í staðfesturétti og það kom bara vel út og alveg örugglega betur heldur en þurrkuntulegur upplestur hefði gert.

Fyrir þá sem ekki vita þá fylgir málsvörn töluverð spenna og þar af leiðandi spennufall að henni lokinni. Við Hrafnhildur drifum okkur í Borgarnes strax að henni lokinni að sækja vistir og á heimleiðinni var farið að draga verulega af manni þegar spennan fór að líða úr skrokknum. En ekki var manni til setunnar boðið því við vorum búnar að heita sjálfum okkur því að sitja málsvörn hjá vini okkar og félaga, honum Sighvati, sem var að verja sitt einkaverkefni seinna um daginn. Þar með náði hann að vera með tvær málsvarnir sama daginn, ekki aumingjalegt það!
Ástæða þess að hann var að þessu einkabrölti er sú að hann fór sem friðargæsluliði til Afganistan fyrir síðustu jól og starfaði þar á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í þrjá mánuði og náði þar af leiðandi ekki að vinna misserisverkefni haustannar í einhverjum góðum hópi. Hann þurfti því að bæta það upp með því að gera verkefni einsamall og það fjallaði einmitt um friðargæsluliða. Það er skemmst frá því að segja að ég sá ekki eftir því að sitja þessa málsvörn því hún var bæði fróðleg og skemmtileg. Það er mál manna að Íslendingar séu ekki með her. Eftir þessa málsvörn dreg ég þá fullyrðingu í efa. Hvað er maður sem klæddur er í einkennisbúning í felulitum og ber vopn hverja vökustund?

Það sem að ofan greinir var skrifað þann 14. maí og vistað til að klára síðar. Það hefur hins vegar gleymst að klára þetta og þar sem ég man ekki mikið eða lengi verður þetta birt svona núna.

Engin ummæli: