þriðjudagur, október 25, 2005

Áfram stelpur

Dagurinn í gær var að mörgu leyti ágætur.
Eyddi megninu af honum í bústaðnum hjá Lóu í glímu við verkefni í fjárfestingum og fjármálamörkuðum. Það gekk svona upp og ofan en ég held ég hafi lært bara svolítið af þessari glímu.
Áður en ég fór til Lóu gáfu strákarnir mínir, Nonni og Matti, mér samt vel að borða í tilefni dagsins, fékk bæði graflax og einhverskonar mexíkóskan pönnukökurétt. Nú má ekki skilja það þannig að það þurfi einhvern sérstakan dag til að þeir gefi mér að borða, þeir eru alls ekki nískir á matinn sinn en í gær þurfti ég ekki að gera neitt, ekki einu sinni að fá mér sjálf á diskinn. Allt var bara rétt upp í hendurnar á mér.
Rétt fyrir kvöldmat kom Helgi Harrys niður af fjalli eftir velheppnað rjúpnaskytterí. Það var svo mikið að gera hjá okkur Lóu að við treystum okkur ekki til að elda hrossakjöt handa honum (auk þess sem það var jú kvennafrídagurinn) þannig að eftir nokkrar vangaveltur var tekin sú ákvörðun að Lóa skyldi fara með Helga í pizzuát í Hreddanum. Ég gerði náttúrulega ráð fyrir að þurfa að fara heim í mat þar sem strákarnir mínir væru örugglega að elda eitthvað gott handa mér. Það stóð heima. Rétt fyrir klukkan sjö var hringt. "Ætlarðu ekkert að koma heim í mat?"
Þetta var Matti. Hann þóttist vera búinn að panta pizzu og ruglaði eitthvað og þvældi þannig að ég spurði hann hvort við ættum þá ekki bara að borða í Hreddanum með Helga og Lóu ef við værum að fara að borða pizzu þaðan hvort sem var. Nei, þá kom annað hljóð í strokkinn og Matti bauð bara Lóu og Helga í mat. Þá var hann búinn að eyða drjúgum tíma í frumraun sína í lasagnegerð. Það er skemmst frá því að segja að maturinn bragðaðist prýðilega og ég borðaði á mig gat. Það var líka virkilega skemmtilegt að hafa matargest að sunnan, en fyrir þá sem ekki vita þá er Helgi fyrrverandi skólabróðir okkar og sambýlingur af vistinni og útskrifaðist í vor sem leið.

Jæja nú er nóg komið af bulli og best að halda áfram að læra undir próf. Já, þar kom ástæðan fyrir svona löngu bloggi; veruleikaflótti sem gjarnan brýst fram þegar læra skal undir próf.
Bara eitt enn og svo fer ég að læra... ég lofa!

Svolítið leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í hátíðarhöldunum í Reykjavík í þetta sinn en fyrir þrjátíu árum komst ég ekki heldur þar sem ég var að passa slatta af krökkum svo mæðurnar kæmust í bæinn. Eftir þrjátíu ár neita ég algerlega að þurfa að berjast fyrir einhverju. Ég geri þær kröfur að þá verði allir orðnir jafnir og friður kominn á um gjörvalla heimsbyggðina.
............... ætti ég kannski að fá mér sólgleraugu?

Fleira verður ekki í þættinum í kvöld,
veriði sæl

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vildi bara minna þig á að það er bara ein "Yoko Ono" á bifröst......en blessuð fáðu þér sólgleraugu, það er kúl!!

Nafnlaus sagði...

Hvad var Helgi ad gera a Bifrost og myrti hann einhverja Rjupuraefla?