mánudagur, desember 26, 2005

Jólin

Þá er tveimur jóladögum af þrettán lokið og allt frí búið. Reyndar ekki hægt að tala um allt í þessu sambandi því það var nákvæmlega einn dagur í frí, þ.e. dagurinn í dag.
Þetta hefur bæði kosti og galla, þar sem ég get unnið mér inn aura en lítið sinnt öðrum og ef til vill skemmtilegri hlutum.

Ég er búin að hafa það afar gott. Eftir að hafa gert íbúðina hér á Dalbrautinni jólahæfa á aðfangadag fór ég í mat til Gunnu systur. Þar borðaði ég yfir mig áður en kom að möndlugrautnum en tróð samt megninu af honum niður. Slapp við að klára hann þar sem mamma (eins og venjulega) fann möndluna sína í tæka tíð svo að hundurinn fékk að klára minn skammt okkur báðum til mikillar ánægju. Nú má ekki misskilja mig. Grautur þessi er afar ljúffengur.

Alveg furðulegt með hana mömmu. Hún fær alltaf möndluna. Einu sinni fékk Drengur Óla möndluna þar sem við vorum stödd í Reykjavík ein jólin og seinna komst ég að því að auðvitað hafði mamma fengið möndluna en laumast til að skipta um skál við Dreng.

Það tók vitanlega heillangan tíma að opna pakkana þar sem mamma fær alltaf milljón pakka en þegar því loksins lauk drifum við okkur í afmæliskaffi til Halla bróður sem varð 55 ára á aðfangadag. Þar svignaði borð af kræsingum en ekki hægt að segja að maður hafi haft mikla lyst. Fékk mér samt örlítinn bita af dásamlegri súkkulaðiköku.

Það var notalegt að komast svo með Arnald upp í rúm. Ég hafði hlakkað mikið til að lesa nýjustu bókina hans, sem Drengur og Jóna gáfu mér í jólagjöf, en var svo syfjuð að ég náði ekki að lesa nema örfáar síður áður en ég sofnaði.

Jóladagur fór svo að mestu í svefn. Ég svaf meira en ég vakti þann daginn. Gat lesið tvær, þrjár síður í einu áður en ég sofnaði. Svaf meira að segja af mér afmælisveisluna hennar Sóleyjar mágkonu. Já það er allt fullt af afmælum um jólin í minni fjölskyldu. Það er freistandi að halda að ég hafi svo átt erfitt með að sofna á jóladagskvöld eftir allan þennan svefn, en það var nú öðru nær. Sofnaði eins og engill um ellefuleytið.

Í dag kláraði ég svo Arnald og fór til Keflavíkur með mömmu. Þar fékk ég dýrindis læri af lambi og frómasinn hans Halldórs. Allt mjög gott. Sá svo um það bil helminginn af nýja þættinum hans Loga fallega, Meistaranum, áður en ég brunaði af stað í bæinn aftur. Er sem sagt nýkomin þaðan og þarf að fara að sofa þar sem vinnan bíður í fyrramálið.

Vona að næstu ellefu dagar jóla verði lengur að líða en fyrstu tveir. Alltaf gaman að jólunum, ljósunum og notalegheitunum.

Gleðileg jól.

3 ummæli:

Jónína Ingibjörg sagði...

Getur ekki hafa verið á Þórshöfn þar sem ég hafði aldrei möndlugraut á jólunum enda grjónagrautur snæddur í annað hvert mál allt árið þar í bæ.....

Magdalena sagði...

Var það s.s grjónagrautur þegar það var ekki Te og brauð...haha. Gaffalbitar anyone? :D

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól elsku frænka,, ég er nú ekki alveg sammála þér með að Logi sé fallegur,, úff ég bara þoli hann varla :S en annars risa jólaknús til þín og vonandi náum við nú að hittast allavega einu sinni áður en þú ferð aftur í sveitina,, kveðja Þóra frænka