föstudagur, desember 09, 2005

Síðasti dagurinn

Var að ljúka síðasta kennsludeginum á sjöundu önn minni hér á Bifröst.
Þetta var langur og strangur dagur sem hófst klukkan 8:10 í morgun með Verðbréfa- og kauphallarrétti. Þegar þeim tíma lauk tók við fundur um meistaranám hér við skólann sem stóð til að verða 13:00. Klukkan 13:15 hófst svo enskan.

Þetta var athyglisverður fundur um meistaranámið. Áður en hann hófst var ég alveg búin að ákveða að fara í MS, þ.e. viðskiptalögfræði, en rétt eftir að hann hófst var ég komin á þá skoðun að ég ætti að fara í ML, þ.e. lögfræði sem gefur réttindi til að taka lögmannspróf, og þegar fundinum lauk var ég komin á þá skoðun að hætta bara í vor og fara að vinna í sjoppu.

Einn nemandi er að taka MS, skattalínu, og ætlar jafnframt að taka ML með því að bæta við sig fögum. Það er náttúrulega möguleiki sem hægt væri að skoða. Mig langar ekki í eintóma lögfræði. Mér finnst mjög gott að hafa þessa fjölbreytni sem fylgir viðskiptalögfræðinni. Stundum er maður hundleiður á lögfræðinni eftir að hafa gert eitthvað verkefni og er voða feginn að komast í smá útreikning eða eitthvað annað viðskiptatengt. En svo er ofsalega hagstætt að hafa möguleikann á lögmannsréttindum, þ.e. málflutningsréttindi. Þannig að það er sjaldan ein hlið á málum.

Í enskunni eftir hádegið þurfti ég að verja tilvist Sellafield og það á ensku, náttúrulega. Það var ekkert gaman en gekk alveg sæmilega.

Það er komið á daginn að ég verð að vinna um jólin. Ég þóttist hafa efni á því að leitast ekki eftir vinnu en fannst ég ekki hafa efni á að hafna vinnu þegar hún bauðst. Þannig að.... engin leti í jólafríinu.

Nú liggur sem sagt fyrir að fara að læra undir þrjú próf sem verða á mánudag, þriðjudag og fimmtudag. Eftir þennan stranga dag er ég ekki beint í stuði fyrir meiri lærdóm og því fáið þið þessi skrif núna.

Að lokum vil ég senda vinum og ættingjum til sjávar og sveita innilegar aðventukveðjur.
Lifið heil.

3 ummæli:

Magdalena sagði...

Ég mæli með því að gerast meistari, það er alveg dásamlegt,hehe :D

Miss Marsibil sagði...

Nei, það var ekkert sérlega gaman í enskunni á föstudaginn :(
En nú er þessu að ljúka - því gleðjumst við að sjálfsögðu.

Gangi vel í prófunum ;)

Jónína Ingibjörg sagði...

Ja, Magdalena, þú veist hvað þú þarft að gera ef ég fer í meistarann :)

Iða, takk sömuleiðis....