mánudagur, apríl 17, 2006

Afmæli

Átti með eindæmum skemmtilegan afmælisdag hér í Shanghai.
Dagurinn byrjaði klukkan sjö þegar ég vaknaði mér til mikillar furðu. Ég er bara svona mikið barn ennþá greinilega, vakna eldsnemma full af tilhlökkun! Eða kannski voru það bara helvítis prammarnir sem vöktu mig.
Hafði það bara huggulegt og rólegt fram eftir morgni. Talaði heillengi við Boggu frænku á msn, alveg snilld þetta msn og veraldarvefurinn og ... bara þessi tækni sem við höfum í dag.
Um miðjan morgun kom Marteinn úr blómabúðinni með afmælisgjöfina frá elsku syni mínum sem hafði samið við hann um að redda þessu fyrir sig. Þetta sló í gegn enda allt sem ég gæti óskað mér, sem sagt blóm, rauðvín og út að borða.
Næst var haldið í fótanudd með viðkomu á Horninu. Þar gáfu strákarnir mér hádegismat, þessir öðlingar, Birgir að vísu ennþá sofandi heima. Fótanuddið var alveg rosalega gott og notalegt og ég leið út úr nuddstofunni á bleiku skýi með fætur mjúka eins og svamp.
Skýið bar mig heim þar sem strákarnir biðu með gjafir handa mér. Þeir höfðu virkilega lagt sig fram og greinilega haft gaman af. Enda var hlegið og flissað við að taka upp pakkann sem hafði að geyma kínverskt tesett, afar fallegt armband og fleira sem, af sérstökum ástæðum, verður ekki tíundað hér.
Gókart var næst á dagskrá. Það var í boði drengjanna og slóst Halldór Þormar í hópinn. Ég hafði aldrei farið í Gókart áður en alltaf langað til þess og það er skemmst frá því að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta var rosalega gaman. Ég get ekki beðið eftir að komast aftur en ég hef ákveðið að verðlauna mig með Gókarti ef ég næ að klára þessa andskotans ritgerð mína.
Þegar Gókartinu lauk var klukkan orðin ansi margt og allir orðnir glorhungraðir þannig að heilnuddið sem ég hafði áformað varð að bíða betri tíma. Nú var rokið heim, upp sett sparibrosið og rokið út að borða. Það skyldi borðað á afar fínum veitingastað sem hafði upp á að bjóða hlaðborð sem á víst að svigna af kræsingum. Þar getur maður borðað allt sem maður getur í sig látið. Þegar loksins var komið á staðinn var klukkan orðin tuttugu mínútur gengin í tíu og okkur sagt að hlaðborðið lokaði eftir tíu mínútur. Nú voru góð ráð dýr. Ekki vildum við borða í einhverju hendingskasti þannig að það varð úr að geyma hlaðborðið til betri tíma og reyna að finna annan stað. Það gekk hálfbrösuglega í fyrstu en við enduðum á arabíska staðnum góða og vorum sko ekki svikin af því. Þar fengum við okkur grillpinna og grænmeti, afar gott allt saman.

Þetta var sem sagt afar vel heppnaður dagur og verð ég sambýlismönnum mínum ævinlega þakklát fyrir þeirra þátt í því.

Þakka ykkur öllum fyrir afmæliskveðjurnar og að lokum langar mig að deila með ykkur myndbandi. Endilega kíkið á þessa slóð: http://nobravery.cf.huffingtonpost.com/

Friðarkveðja,
Jónína

P.s. Myndir komnar inn

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló.... Til hamingju með daginn frænka.... gaman að lesa um ferðir þínar í Kína.
með afmæliskveðju..... Íris D.

Nafnlaus sagði...

Rosalegt myndband...

Nafnlaus sagði...

Setti mitt komment á vitlausan stað..nema hvað.. kannski ekki við örðu að búast þar sem ég er frá Eiði.... (einhver hefði komið með þessa útskýringu).
Það er í Öskudagur
:)HVÞ

Nafnlaus sagði...

betra er seint en aldrei, til hamingju með daginn, gott að vita að drengirnir hugsi vel um þig,, það var svo sem ekki við öðru að búast :)

Nafnlaus sagði...

fékkstu titrara???

Nafnlaus sagði...

ég skammast mín ekkert smá mikið... Til hamingju með afmælið elskan mín, ástín mín...
1000 kossar frá mér
(ég geymi rauðvínið handa þér þangað til þú kemur heim)
bið að heilsa öllum þarna
kv Harpa