sunnudagur, apríl 02, 2006

Blessaður hvíti þvotturinn

Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi þá höfum við þvottavél eina kínverska. Hún er þeim annmörkum búin að þvo eingöngu úr köldu vatni. Ég skil ekki alveg tilganginn með þess háttar þvottavél því svo lengi sem ég man hef ég alltaf haldið að hitinn á vatninu væri lykilatriði varðandi tauþvott. Eða bara þvott yfir höfuð.
Ég hef allavega komist að því að þetta er rétt ályktað hjá mér því hvíti þvotturinn minn er alls ekki hvítur lengur. Í allan morgun hef ég dundað við að leggja í bleyti í klórvatn, gráar brækur og steingráar tuskur með það að markmiði að gera þetta hvítt aftur. Ég hlakka til að sjá árangurinn. Þetta minnir mig á þegar ég var lítil og þvottavélarnar voru ekki eins góðar og í dag eða kannski ekki til á hverju heimili. Þá sá maður stundum pott á eldavél þar sem soðinn var þvottur. Ég hélt satt að segja að ég ætti ekki eftir að sjá þetta aftur en svona er lífið. Reyndar er ég ekki farin að sjóða þvott í potti á eldavél en það gæti farið svo ég gerði það ef hún virkar ekki hjá mér þessi bleytulagning.
Við keyptum rústrauð handklæði í Ikea. Ég byrjaði á að þvo þau í þvottavélinni okkar en það var engu líkara en þau hefðu ekkert verið þvegin því þegar ég þurrkaði mér með þeim eftir sturtuna var ég öll út í rústrauðu kuski en alls ekki þurr. Þið vitið, eins og þegar maður þurrkar sér á nýju handklæði sem ekki er búið að þvo, draga ekkert í sig. Ég gat svo farið með handklæðin til Bakarans og Halldórs því þeir eru með svona alvöru þvottavél.

Annars er allt hen hao

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þú manst eftir potti á eldavél með þvotti í ... manstu eftir lyktinni? Ég man þegar amma var að þvo niðrí þvottahúsi, þar var suðupottur, þvottabretti, balar og þegar hún var að þvo þá setti hún nærbuxur (hreinar auðvitað) á haustinn til þess að hárgreiðslan myndi ekki aflagast í gufunni og söng hástöfum með hún sullaði í klabbinu. Ég sé þig fyrir mér.

Nafnlaus sagði...

jamm, ég er nú með ágætis þvottavél en nú fyrir nokkrum dögum kom allur fyrrverandi hvíti þvotturinn úr vélinn i svona ljósblár... líklega hef ég gleymt að tengja heita vatnið, það hlaut að vera............

Nafnlaus sagði...

Já, nú ætla ég að hætta að illskast yfir þvottastússi, ég sé að ég hef það ekkert smá gott á þeim vettvangi, allur þvottur skjannahvítur og handklæði 100% rakadræg... Tók enginn mynd af þér á nýju fínu myndavélina? Veit ekki hvort ég reyni þetta með símann, ég er ekki mjög tæknilega sinnuð.
Hen hao, Heiðrún