miðvikudagur, maí 24, 2006

Þetta er nú bara eins og kínverska fyrir mér



Var að koma úr kínverskuprófunum. Skriflega prófið var svona happadrætti þar sem maður reyndi að giska á hvað orðin þýddu, því ekki vissi maður það nema í einstaka tilfellum. Veit sem sagt ekkert hvernig það hefur gengið en hefur ábyggilega sloppið.

Munnlega prófið gekk líka svona glimrandi vel enda ég búin að eyða mestöllum tímanum í undirbúning á því á kostnað þess skriflega. Við Sævar vorum saman í munnlega prófinu en við þurftum að kynna okkur hvort fyrir sig og svo þurftum við að eiga samtal. Við settum á svið þetta svakalega spennandi leikrit þar sem ég var sölumaður á markaði en Sævar var viðskiptavinur sem vildi kaupa ávexti. Ég held að Sævari hafi verið orðið nóg um hvað ég vildi æfa mikið en það er alltaf sama sagan með þetta kvenfólk það kann aldrei neitt.

Það hefur verið ógeðslega heitt í dag og sólskin. Sat við gluggann í skriflega prófinu og sólin skein beint á mig og ég var að bráðna. Veðurstöðin mín sýnir bara 25° en það hlýtur að vera heitara. Annars er ég víst ísbjörn þannig að það er kannski ekki að marka.

Eitt próf á morgun. Það er Introduction to chinese legal system eða kynning á kínversku lagakerfi. Veit ekki hvernig það á eftir að ganga en vona bara það besta. Eftir klukkan fjögur á morgun er ég sem sagt búin... jibbý!

Á föstudag er ferðinni heitið til Peking að skoða Kínamúrinn, torg hins himneska friðar og fleira skemmtilegt. Ég, Sævar og Matti förum ásamt bakaranum og frú en Birgir ætlar að skella sér til Tælands. Mér skilst að stelpurnar séu sætari þar.

Best að lesa um kínverska réttarkerfið.
Zaijian

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sælar frú ísbjörn

Ég vildi nú eiginlega að ég væri að fara með ykkur á torg hins himneska friðar en það er þó huggun harmi gegn að í staðinn get ég setið hér og dundað við að klippa myndir af drengjunum þínum út úr kosningapésum. Framsóknarflokkurinn flaggar nefnilega öllu sínu flottasta og besta þessa dagana, í grimmri varnarbaráttu, og auðvitað eru framsóknarfélagsmenn á Bifröst þar fremstir af fallegum.:-)

Vertu svo til friðs á torginu Jónína mín,og passaðu að drengirnir verði ekki með læti....
Mbk.Óe

Nafnlaus sagði...

Ussussuss, veðurstöðin mín sýnir bara 7,6°c og þetta er bara annar dagurinn í röð sem hún sýnir eitthvað í plús, en þetta fer ört hækkandi svo ég er ánægð á meðan.

Til hamingju með útskriftina, þú stendur þig vel !