föstudagur, maí 26, 2006

Útskrift og afmæli


Marteinn átti afmæli í gær og átti heldur einmanalegan afmælisdag framan af, þar sem allir nema hann, fóru í próf eftir hádegi og voru því uppteknir langt fram eftir degi. Hann lét þó ekki illa af sér, enda svo sem ekki slæmt að hafa svona dag út af fyrir sig, en það er ekki algengt í svona sambýli. Í gærkveldi bauð hann svo okkur sambýlingum sínum út að borða á fínt steikhús þar sem við fengum dýrindis mat. Eftir matinn hittum við svo alla hina Íslendingana og skemmtum okkar vel mislengi fram eftir morgni.

Klukkan tíu í morgun fórum við í þá bestu útskriftarathöfn sem sögur fara af. Shanghai University hélt okkur skiptinemum frá Íslandi, Finnlandi og Þýskalandi þessa athöfn til að útskrifa okkur úr þessu skiptinámi, þrátt fyrir að ekki séu komnar niðurstöður úr prófum. Athöfnin var haldin í litlum sal og var uppröðun eins og á dæmigerðum útskriftum. Xia alþjóðafulltrúi hélt tölu sem tók um það bil 3 mínútur og svo voru lesin upp nöfnin, eitt í einu, og afhent skírteini og bolir merktir skólanum. Sem betur fór var enginn Þjóðverji mættur og einnig vantaði marga úr okkar röðum og Finnanna, þannig að þetta tók ekki langa stund. Öll athöfnin hefur tekið svona um það bil 15-20 mínútur. Sem sagt alger snilld. Við þurftum ekkert að hlusta á langar og leiðinlegar ræður fyrirmanna skólans um hverju þeir hafi nú áorkað með dugnaði og elju eða eitthvað slíkt kjaftæði. Engin leiðinleg skemmtiatriði og engir aumir rassar.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til samanburðar get ég frætt þig á því að hér á Bifröst er búið að opna Hriflu, raða stólum og tjalda yfir hálft torgið, allt til að fagna útskrift á morgun! Mér er sagt að hver útskriftarnemi fái AÐEINS fjögur sæti, svo það hlýtur að vera eftirsótt að komast á samkomuna!

Nafnlaus sagði...

Innilegar hamingjuóskir með útskriftina, það væri nú munur ef maður gæti nú alltaf bara fengið að útskrifast áður en einkunnir kæmu!! hehe... vona að þú skemmtir þér vel síðustu vikurnar í Kína! kær kveðja Uppáhaldsfrænkan...
p.s. hvernig er það, eigum við von á að það bætist kínverji í fjölskylduna??? ;)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með útskriftina elsku Jónína, ekki á hverjum degi sem frænka manns útskrifast úr kínverskum háskóla.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju elsku Nína! Þetta er alveg frábært hjá þér. Flott úrskriftarmappa og örugglega glæsilegar einkunnir! Sat í tæpa 2 tíma við útskrift í MK í Digraneskirkju 26. maí. Ræður og þverflautublástur og læti. Og marens og mæjónes á eftir. Mun leggja til að þetta verði gert með kínversku sniði næst. Hlakka til að sjá þig aftur, fyrirhugað er Þórshafnarpartí 10. júní svo þú verður að drífa þig heim ("heim heim heim")!

Nafnlaus sagði...

Svona á þetta að vera, þeir kunna greinilega á þessu lagið Kínverjarnir. Er að vinna að því að útskrifa 1. bekk með viðhöfn á miðvikudag, flutningabíll á leiðinni með skikkjur og húfur...
Heiðrún

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með útskriftina:) ég var að fá ömmubarn á laugardag Lísa mín eignaðist strák 15 merkur og 52 cm kveðja frá okkur á Akranesi:))

Nafnlaus sagði...

já Nína til hamingju. Verður svo ekki svaka veislur þegar þú kemur heim.