mánudagur, maí 01, 2006

Land hinna vinnandi stétta











Já, það er dagur verkalýðsins og ég í Kína, sjálfu verkalýðslandinu. Hreinsitæknirinn okkar, hún Pan, kom áðan og ég er búin að reyna allt til að fá hana til að fara heim. En allt kemur fyrir ekki. Hún hlýðir mér ekki og vill bara þrífa.
Ég byrjaði á að borga henni launin og sagði henni svo að hún mætti ekki vinna á 1. maí.
Gaf henni safa og íslenskt sælgæti og sagði að á Íslandi ynni verkafólk ekki á 1. maí.
Ég sagði henni líka að ég væri af verkafólki komin og að mamma mín yrði brjáluð ef ég léti hana vinna í dag.
Svo reyndi ég að segja henni að fara heim og hugsa um barnið sitt en ekkert gekk.
Hvað á ég að gera?
Engin hjálp í strákunum þar sem þeir fóru í tívolí enda eru þeir framsóknarmenn og hugsa því bara um rassgatið á sjálfum sér og væla yfir því hver eigi þá að þvo af þeim ef ég banna Pan að vinna í dag.
Reyndar veit ég ekki með Bigga, hann tjáði sig lítið um málið þegar ég sagði honum að ég ætlaði ekki að láta hana vinna í dag. Hann tók hins vegar ruslið með sér út, hann má eiga það.
En, jæja ég á víst að skila ritgerð eftir nokkra daga og ekkert gengur.

Öreigar allra landa sameinist !!!!

Til hamingju með daginn!
Zhuheni!

Engin ummæli: