mánudagur, maí 15, 2006

Misjafnir menningarheimar

Var að ganga heim úr skólanum þegar framundan sá ég par, sitjandi á hækjum sér á gangstéttinni.
Hún öskraði eitthvað á kínversku eins og hún ætti lífið að leysa og tárin runnu niður kinnarnar. Hann var hinn rólegasti, á yfirborðinu, og talaði til hennar í lágum hljóðum. Hún var greinilega alveg brjáluð yfir einhverju sem hann hafði gert, eða ekki gert. Gæti reyndar verið að hún hafi verið brjáluð út af einhverjum öðrum, ekki gott að segja. Ég náttúrulega glápti eins og naut á nývirki og fannst þetta afar undarlegt. Svo sá ég lögreglubíl keyra fram hjá afar hægt og hugsaði með mér; Já, já, löggan komin í málið"
Nei, þvi var sko ekki að heilsa. Löggan hafði hægt svona á sér til að horfa á mig, skrýtna vesturlandatröllið. Ég leit í kringum mig til að athuga hvort aðrir vegfarendur væru ekki líka að glápa á fólkið með sama undrunarsvip og ég, en nei. Allir fóru bara fram hjá eins og þetta væri sjálfsagðasti hlutur í heimi.
Ég gekk áfram, langaði til að stoppa til að athuga hvernig þetta færi, en kunni ekki við það.
Þegar ég var kominn í mitt portið með fram dómshúsinu sá ég föður með stúlkubarnið sitt svona um það bil 6 ára gamalt. Hann benti stúlkunni upp að veggnum þar sem steypt rist, einskonar niðurfall er í stéttinni. Hún reif niður um sig buxurnar og fór að pissa á ristina.
Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég sá eitthvað álíka en eftir þessa tvo atburði fór ég að velta fyrir mér þessum menningarmun á milli okkar Íslendinga og Kínverja. Ef maður sér par rífast svona heiftarlega á almannafæri á Íslandi þá veit maður að það er fyllerí í gangi og aldrei sér maður barn pissa á svona fjölförnum stað í Reykjavík.
Hverjir eru frjálsir og hverjir bældir?

Zaijian

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hæ hæ frænka :O)

ætluðum bara að kasta á þig kveðju...


koss og knús úr Njarðvík til þín :O)

þinn "uppáhaldsfrændi" Almar Óli

p.s. mamma og pabbi biðja að heilsa.

Nafnlaus sagði...

Hafiði séð syni mína?? Þeim finnst engu máli skipta hvar það er látið gossa og það er ekki mamman sem hvetur þá nema síður sé.
Heiðrún