
Mig langar ekki að vera bókaormur. Mig langar að vera garðyrkjumaður og vera úti og vinna með líkamanum. Ég er ekki hönnuð til að sitja yfir bókum. Ég er hönnuð til að gera eitthvað líkamlegt.
Ef ég væri garðyrkjumaður væri ég örugglega núna að skrifa um það hvað mig langaði að sitja yfir bókum í einhverri þægilegri innivinnu. Svona er lífið. Grasið alltaf grænna hinum megin við ána.... eða girðinguna eða hvað það nú var .
Kannski er meðalhófið bara best í þessu sem öðru. Ef til vill ætti maður að vinna hálfan daginn úti, með líkamlegum tilburðum og hinn helminginn sitja inni yfir bókum eða þvíumlíku.
Annars er ég að rembast við að skrifa ritgerð í réttarsögu. Það gengur hægt. Nema hvað. Til að skrifa þessa ritgerð hef ég aflað mér ýmissa heimilda og þar á meðal greinarkorns sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst árið 1960. Á síðu þeirri í blaðinu er greinin birtist er einnig dálkur sem nefnist Velvakandi en þessi dálkur mun enn vera við lýði á blaðinu eftir því sem ég best veit.
Í þessum Velvakanda er svohljóðandi fyrirspurn birt:
Afgjald af ferðatækjum
Hlustandi skrifar: - Ég væri afar þakklátur, ef Velvakandi vildi svara eftirfarandi spurningum:

Ég á bíl, sem ekki er með útvarpstæki, en þegar ég fer í honum tek ég stundum með mér lítið ferðatæki, sem hafa má í vasanum. Þarf ég að borga afnotagjald af notkun þess þar? Það skal tekið fram, að ég á annað útvarpstæki heima hjá mér, sem ég greiði venjulegt afnotagjald af.
Nú tek ég vasa útvarpið með mér í bílinn án þess að nota það þar. En ef við setjumst einhvers staðar niður úti við til að fá okkur kaffi, og hlustum á útvarpið á meðan, er sú notkun þá gjaldskyld?
Að lokum: Þurfa menn að borga afnotagjald fyrir að ganga á götum úti með vasaútvarp í skyrtuvasanum og hlusta á ríkisútvarpið?
Svar Velvakanda á þessu var eitthvað á þá leið að borga þurfi afnotagjald af viðtækjum í bílum en hlusti menn á ferðaviðtæki yfir kaffi úti í náttúrunni sé notkun þess gjaldfrjáls og eins geti menn útgjaldalaust hlustað á Útvarp Reykjavík er þeir ganga á götum úti með ferðaviðtækið sitt í vasanum.
Þess má að lokum geta að Ríkisútvarpið Sjónvarp hóf útsendingar nokkrum árum eftir þetta.
3 ummæli:
Jónína! Hvernig væri að þú yrðir nú velvakandi í smástund og svaraðir mikilvægri spurningu um hreppa fyrir hann Sissa Lín.
Ég sit hér og hamast við að svara Sissa Lín svo ég komist nú örugglega með þér í kröfugönguna á morgun!
Í ljósi þess hversu Framsóknarmenn eru lunknir slagorðasmiðir þá treysti ég því að þú verðir tilbúin með spjöldin :)
við lærum þar að lesa strax,
[aðeins eitt afnotagjald, jafnvel þótt hægt sé að ferðast með viðtækið og það löngu áður en hver fermingarkrakki fékk sjónvarp í sitt herbergi. Er þetta framsýni eða tekjutap innheimtudeildar?]
og leirinn hnoðum eins og vax...
Skrifa ummæli