föstudagur, desember 31, 2004

Jól í Skövde - Áramót

Jæja, nú er komið kveld gamla ársins og sá tími kvöldsins þar sem maður veit ekkert hvað maður á af sér að gera hér í Skövde. Heima væri maður að spjalla við ættingja og fylgjast um leið með fréttaannálum, það er að vísu hægt að sjá annálana á netinu og hef ég gert það nú um hríð en það vantar ættingjana til að trufla mig. Drengur situr í leðursófanum sínum með rauðvínsglas í hönd og hlustar á tónlist í flottu, flottu græjunum sínum og ég sit með rauðvínsglas við tölvuna.

Eins og lög gera ráð fyrir hófum við Drengur hátíðarhöldin með neyslu dýrindins fæðu um sjöleytið. Forrétturinn innihélt norskan graflax, ristað brauð, graflaxsósu a la Drengur og þetta líka dýrindis hvítvín frá Dr. Faust. Aðalrétturinn var svo ekkert annað en sænsk hreindýrasteik með skógarsveppum, hreindýrasósu a la Drengur og dýrindis Faustino I rauðvíni. (Alger tilviljun þetta með nöfnin á vínunum!) Það er skemmst frá því að segja að þetta var einn besti matur sem ég hef smakkað og ég held að hreindýrasteik verði oftar á jólaborðum hjá mér í framtíðinni (verst hvað það er dýrt á Íslandi!)

En nú þarf maður víst að fara að snupra* sig því mér skilst að við séum að fara til hans Jóa (barnabarn Gullu í Gullubúð) til að skjóta upp flugeldunum og hafa gaman með öðrum Íslendingum í Skövde.
Gleðilegt ár og megi nýtt ár færa ykkur gleði og hamingju.
* Orðskýring: Langnesingar skilja þetta... aðrir þurfa að bera sig eftir skýringu símleiðis eða augliti til auglitis.

4 ummæli:

Jónína Ingibjörg sagði...

Það kom ekki nógu skýrt fram að Drengur var að sjálfsögðu aðalkokkurinn við þessa veislu og hvorki Siggi Hall né nakti kokkurinn hefðu gert betur! (Hvað þá Jói Fel. enda bara kokkur)

Jónína Ingibjörg sagði...

(enda bara kokkur) átti að sjálfsögðu að vera (enda bara bakari)
Úff.... aðeins að slaka á rauðvíninu.............

Nafnlaus sagði...

Ekkert smá gómsætur maturinn á matseðlinum hjá ykkur á gamlárs. Ég smakkað einmitt hreyndýr í fyrra og það var mjög gott en er einmitt svo dýrt......

Þóra Kristín

Nafnlaus sagði...

Mikið er þetta nú búið að vera skemmtileg lesning. Vonandi er hægt að fylgjast með maurum og örðum fjölskyldumeðlimum áfram á þessari bloggsíðu. En eins og Drengur tók fram ( í þínu nafni) þá eru maurar ágætis fæða ( finnst örugglega e-hv). Hafið það ógeðslega gott.
Saknaðarkveðja
Harpa