Jæja, nú eru aðalhátíðarhöldin yfirstaðin og grár hversdagsleikinn að taka við. Það er ekki laust við að maður sé orðinn ansi saddur af hátíðarmat og farið að langa í soðna ýsu eða eitthvað þess háttar. Við Drengur fórum svöng í búðina fyrir áramót og versluðum nokkurra daga birgðir fyrir sex manna fjölskyldu og þar sem við erum jú bara tvö í heimili þá gengur hálf illa að innbyrða alla þessa fæðu þó enginn liggi á liði sínu í þeim efnum. Borðuðum sænska jólaskinku með öllu tilheyrandi í gær sem bragðaðist afar vel og fengum til þess aðstoð frá Gulla, Íslendingi sem einnig stundar nám hér í Skövde. Nú eigum við bara eftir að borða sænska lambalærið (fyrir utan alla afgangana) og er ég að hugsa um að leggja fram tillögu um að það verði bara sett í frysti og í staðinn tekinn út þorskur sem ég veit að leynist þar einhversstaðar svo ég neyðist ekki til að kaupa tvö sæti í flugvélinni á leiðinni heim.
Var að komast að því að skólinn byrjar ekki fyrr en á miðvikudag 12. janúar, ég hélt hann byrjaði á mánudag, þannig að það verður einhver tími til að hitta vini og ættingja áður en ballið byrjar. Ekki slæmt það.
þriðjudagur, janúar 04, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hvaða hvaða Drengur, farðu bara á Apú og fáðu þér kebabpizzu með strips
Skrifa ummæli