mánudagur, janúar 17, 2005

Komin heim

Nú er ég komin heim og ballið byrjað. Baslið hófst á stjórnunarleik þar sem við eigum að stjórna og reka fyrirtæki sem framleiðir og selur skynjara. Þetta er vitanlega ekki alvörufyrirtæki heldur forrit sem á að virka eins og í alvöru þannig að maður getur hæglega farið á hausinn með allt saman. Það verður gaman að sjá hvernig þetta fer en þetta á að standa yfir fram til loka mars.

Ég var varla stigin á íslenska grund þegar ég fékk þær fréttir að báðir drengirnir mínir væru að yfirgefa mig. Fyrir þá sem ekki vita þá er hér um að ræða þá Birgi og Sævar sem hafa deilt með mér húsnæði í haust og reyndar tvo síðustu vetur. Þeir ákváðu sem sagt að fara að búa með kærustunum sínum. Sævar flutti inn til sinnar og Birgir fékk íbúð fyrir sig og sína í skiptum fyrir herbergið sitt. Ég hef því undanfarna daga búið með Herði bakara og Jóni Helga og leist bara vel á og var orðin bara gríðarlega jákvæð gagnvart þessum breytingum. En....... eitthvað voru nú húsnæðisyfirvöld hér á Bifröst ekki sátt við þessi skipti, þannig að Birgir kemur að öllum líkindum bara aftur í herbergið sitt. Íbúar í Miðgarði 1 verða þá að öllum líkindum ég, Biggi og Hörður. Bara gott mál þó ég hefði gjarnan viljað hafa hann Jón hérna hjá okkur áfram. Fínasti drengur það.

Botnakeppnin
Þá er það botnakeppnin. Mamma benti mér nú á það að ég skrifaði: "...fyrsti botn" þar sem var að sjálfsögðu fyrsti fyrripartur. Ég biðst velvirðingar á þessu.
Ég komst að því að það er erfitt að vera með svona keppni öðruvísi en að hafa einhverja dómara því mér finnst erfitt að gera upp á milli fólks. En ég kom þessu af stað og verð því bara að standa mig. Ekki satt?
Það eru margir tilnefndir en fáir útvaldir og þið þarna slipparar: Þetta er botnakeppni! Flott vísa hjá ykkur og skal ég hafa hana í huga þegar og ef ég kem á fót vísnakeppni. Eftir mikið japl, jaml og fuður komst ég að þeirri niðurstöðu að besti botninn er svohljóðandi:

nú þarf ég heim að þræla mér
þó frjósi, blási og snjói.

Vísan er þá svohljóðandi í heild sinni:

Aðgerðarleysið orðið fer
alveg fram úr hófi.
Nú þarf ég heim að þræla mér
þó frjósi, blási og snjói.

Til hamingju Esther en ég verð að játa að ég var ekki alveg búin að velta fyrir mér verðlaunum, hélt kannski að heiðurinn væri nóg. Aldrei að vita samt nema þau birtist einn góðan veðurdag :-)

Þá er það bara næsti fyrripartur:

Vísubotninn verður að
vera þannig gerður




5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

tókum við það ekki fram að þetta væri (uhh svona smá athugasemd ....) en ekki botn enda var basl að botna botninn.
það var svo sem ekkert tiltekið að það mætti bara setja botna í comment.
og ...... svo!!!!!!!!!



slipparar

Nafnlaus sagði...

Þið megið, innan velsæmismarka, setja það sem þið viljið í athugasemd og vísur er vel þegnar. Vildi bara árétta ástæðu þess að þið komuð ekki til greina í verðlaunasæti fyrir botna.
Haldið áfram góðu verki (e. keep on the good work)
Kveðja,
Mamman

Nafnlaus sagði...

Ég er afar sátt með heiðurinn, ég hef ekki spreytt mig á að botna áður þannig að þetta kom skemmtilega á óvart. Kannski maður reyni aftur við tækifæri.
Gangi þér vel með fyrirtækið þitt og sambýlingana.
Kær kveðja,
Esther

Nafnlaus sagði...

Vísubotninn verður að
vera þannig gerður........

Hann hafi rím og höfuðstaf
Hér reglum fylgja verður

Síðasta línan er alltaf erfiðust.
Kk,
Esther

Nafnlaus sagði...


Nú tókst mér að commenta, snilld! Það eru aldeilis forréttindi hjá þessum námsmönnum, fá að búa með tveimur myndarlegum körlum á besta aldri og jafnvel einum í viðbót og skipta síðan út milli ára. Spái að þessir tveir brotthlaupnu gefist upp á kærustunum innan tíðar og komi aftur til þín. Bíð spennt nánari frétta...
Steinunn I