laugardagur, mars 26, 2005

Góðir gestir

Ég fékk heimsókn í dag. Það var gaman. Það er ekki á hverjum degi sem fólk keyrir gagngert frá Reykjavík til Bifrastar og aftur til baka bara til að heimsækja mann. Það er hins vegar algengara að fólk komi hér við í mýflugumynd á leið sinni eitthvað annað. Þó eru sumir sem ekki einu sinni mega vera að því að stoppa þó þeir keyri fram hjá á leið sinni eitthvað annað (taki þeir til sín sem eiga). En sem sagt, ég fékk gesti í dag. Þar voru á ferðinni stóra systir, hún Guðrún Ólafía, hennar maður Mummi mágur, sonurinn Steinarr frændi og hundurinn Rocco. Eftir að hafa troðið í okkur brauði, kökum og kaffi drifum við okkur í gönguferð niður að Hreðavatni í frekar kaldri golu sem á miðri leið fór að breytast í heldur hlýrri andvara. Þegar heim kom skelltum við okkur í heita pottinn og að því loknu var orðið löngu tímabært að troða meira í sig svo heim var haldið og eldaður kvöldmatur. Eftir matinn opnaði ég páskaeggið sem þau færðu mér og fékk málsháttinn; Enginn er verri þó hann vökni.
Nú eru þau farin og ég sit og bæti upp þau grömm sem gönguferðin gæti hafa kostað með því að háma í mig þetta góða páskaegg. Já, það er gott að eiga góða að!

Nú er örugglega einhver að velta fyrir sér hvað hafi komið fyrir mig. Skrifa bara og skrifa allt í einu sem hingað til hef verið svo löt að blogga. Það er einföld skýring á því. Veruleikaflótti. Ég á sem sagt að vera að læra undir próf og í stað þess að horfast í augu við hvað ég er illa að mér í námsefninu og vera með kvíðakast í maganum að læra og læra, fer ég á flug í blogginu.
En á morgun segir sá lati.

Góða nótt og gleðilegan páskadag.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á Akureyri, þeim gullfallega páskaleyfisstað, var svo mikil rjómablíða að snjór bráðnaði í Hlíðarfjalli og röðin í Brynjuís náði út á götu. Skíðin voru því óþreytt þegar heim kom - uppselt var í allar ferðir á Kaldbak og í leikhúsið sömuleiðis. Svo maður neyddist til að liggja í leti, éta og drekka. Ester og Addi björguðu því sem bjargað varð með að leyfa okkur að hossast á hrossum í sólinni og baka vöfflur oní svanga ferðalanga. Sundlaug Akureyrar er sú langflottasta á landinu og maður hittir alltaf einhvern sem maður þekkir. Vegna þess hversu seint við lögðum af stað bæði til og frá AEY komst Nína ekki í ferðaplanið en glataður endurfundur verður bættur upp síðar... Steinunn I

Miss Marsibil sagði...

Jónína mín, um leið og ég kem á framfæri þökkum fyrir þetta bloggstuð sem þú ert í, vil ég nota tækifærið og láta þig vita af því að þetta er alls ekki óalgengt hegðunarmynstur... þessi veruleikaflótti... ég er aldrei duglegri við að blogga heldur en einmitt þegar ég er komin á deadline með einhver verkefni eða, eins og þú núna, á að vera að læra undir próf.
Eitt enn.. keyrðu bara samt að görðunum.. þú færð þá ekki nema smá skammir í hattin ef kallinn rekst á þig, sem eru mjög litlar líkur á því hann er alltaf keyrandi út og suður og eyðir ekki miklum tíma í að ganga um göngustíga þorpsins okkar..
Iða Marsibil