föstudagur, mars 04, 2005

"Tíminn sem er minn og ég held að ég eigi....

......... hefur fengið mig til að skrifa þessar línur."
(Jóhann Hjálmarsson)
Jesús, Pétur og Jóhannes! Önnin er bara alveg að verða búin og prófin nálgast alltof hratt. Það er alltaf sama sagan á hverri önn, maður er bara rétt byrjaður að taka plastið utan af bókunum og varla búinn að læra stundaskrána þegar, allt í einu, tíu vikur eru að renna á enda og prófin að skella á. Það virðist vera alveg sama hversu oft maður fer í gegnum þetta ferli svo til áfallalaust, það er alltaf sami herpingurinn í maganum þegar maður uppgötvar að prófin eru handan við hornið.

Fyrirsögn þessara skrifa er tekin úr ljóði Jóhanns Hjálmarssonar og lýsir afar vel líðan minni. Ég held alltaf að ég hafi allan tíma í veröldinni en kemst svo að því að
"Tíminn sem ég held að sé hér,
en er líklega annars staðar."

(Jóhann Hjálmarsson)

Steinn Steinarr samdi líka ljóð um tímann og vatnið sem renna veglaust til þurrðar þannig að ég er sennilega ekki sú fyrsta til að finnast tíminn vera takmarkaður

Guði sé lof fyrir páskana því þá fær maður tækifæri til að læra eitthvað af því sem búið er að vera að kynna fyrir manni í vetur. Nú kann einhver að hugsa sem svo; af hverju ertu ekki að læra núna í stað þess að bulla þetta á veraldarvefinn? Já þetta er góð spurning!

Lifið heil

2 ummæli:

Jónína Ingibjörg sagði...

Já, rétt hjá þér Drengur en öfugt við Rollingana álít ég tímann vera gegn mér en ekki með mér.

Nafnlaus sagði...

Góðu mæðgin, svo vitnað sé áfram í skáldin: Tíminn líður hratt á gervihnattaöld... Páskarnir hjá mér verða haldnir hátíðlegir í skíðabænum Akureyri eða eins og þarlendir sungu forðum: Á skíðum skemmti ég mér tra la la la; mér, tra la la la; mér, tra la la la. Er enginn tími f. kaffibolla í Hrauntungunni? Að maður tali ekki um hofróðupartí? Steinunn I