fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Eitt farið... annað bætist við

Vil byrja á að þakka Steinunni hlý orð í minn garð. Ég lofa að koma við næst þegar ég kem í bæinn.

Kláruðum Samkeppnisréttinn á elleftu stundu og kynninguna, sem fylgdi, á tólftu stundu. Gekk samt allt vel og var bara gaman að sjá hina hópana með sínar kynningar. Kennarinn skellti samt á 0kkur nýju verkefni þannig að það hefur í raun ekkert breyst með verkefnafjöldann þannig að ég sé fram á annasama helgi.

En næst á dagskrá er Verðbréfa og kauphallarréttur. Raunhæft verkefni og ekki smátt í sniðum. Það verður fjör og örugglega klárað á seinustu stundu.

Á morgun verður erfiður dagur. Verðbréfin klukkan átta og enska eftir hádegi. Við eigum að flytja kynningu í enskunni á ensku vitanlega. Við eigum að kynna fjármálafyrirtæki og við ætlum að kynna KB banka. Ég er að hugsa um að vera bara með íslenskan hreim á enskunni minni í stað þess að reyna einhvern Oxford eða New York hreim ..... er það ekki bara best? Er ekki betra að vera bara með sinn hreim heldur en einhvern misheppnaðan hreim? Ég held það.

Enskan byrjaði bara núna í síðustu viku. Bara sjö vikna kúrs. Ég skráði mig í hana í sumar af því mér veitir sko ekkert af því að skerpa á henni. Þetta er sko viðskipta- og lagaenska. Ég skráði mig reyndar í u. þ. b. þrjár einingar umfram skyldu, þannig að ég þarf ekkert að fara í enskuna svona einingalega séð. Ég er sem sagt búin að vera í allt haust að reyna að ákveða hvort ég eigi að fara í hana eða ekki. Ég nennti eiginlega ekki að vera í skólanum eftir hádegi á föstudögum og þurfa svo að gera helling af verkefnum en svo náði skynsemin yfirhöndinni og ég ákvað að fara. Ég vona bara að ég eigi ekki eftir að sjá eftir því vegna þess að þetta kostar mig jú aukalega helling af peningum því þetta þýðir að ég er með fleiri einingar en eru innifaldar í skólagjöldum og sem ég þarf að taka.

Póstþjónninn hér á Bifröst hefur undanfarna tvo daga fyllst af kvörtunarpósti. Það er kvartað yfir Stöð 2 og skólanum hér. Út frá því fór ég að velta því fyrir mér hvað við höfum það í rauninni rosalega gott. Ég hef til dæmis aldrei verið matarlaus, aldrei upplifað stríð, aldrei lent í verulegum veikindum eða slysförum, er sem sagt tiltölulega heilbrigð svona líkamlega allavega. Ég fæ að læra og fékk að ganga í skóla þegar ég var barn. Af hverju erum við þá alltaf að kvarta?
Ég var átta ára þegar ég notaði síma í fyrsta sinn. Það var, nánar tiltekið á átta ára afmælisdaginn minn. Drengur bróðir hjálpaði mér að hringja í bekkjarsystur mína til að leiðbeina henni um hvaða leið hún ætti fara til að komast í afmælið. Núna er ég algerlega háð farsíma og er frekar pirruð ef svo einkennilega vill til að einhver er ekki með slíkt tæki og því kannski ekki hægt að ná sambandi við viðkomandi. Einu sinni átti ég eitt sjónvarp sem ekki var með fjarstýringu. Núna á ég tvö sjónvörp og bæði með fjarstýringu og verð pirruð ef fjarstýringin er ekki við höndina og ég þarf kannski að standa upp til að ná í hana. Einu sinni var bara ein sjónvarpsstöð og ein útvarpsstöð.... og ekkert myndbandstæki. Líður okkur almennt betur núna? Nei ég held ekki nema síður sé. Við viljum bara meira og meira. Það var sú tíð að ekkert var sjónvarp á fimmtudögum og þá hittist fólk gjarnan og spjallaði saman eða spilaði á spil. Það var bara gaman og afslappandi. Ég á góðar minningar frá fimmtudagskvöldum æsku minnar þegar ég lá á stofugólfinu og hlustaði á útvarpsleikritið. Það var svo mikil ró og kyrrð yfir því, enginn æsingur. Það skipti engu máli hvaða leikrit var flutt, hvort það var leiðinlegt eða skemmtilegt, það var andrúmsloftið sem maður sóttist eftir.

Þetta er fínt.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einu sinni átti ég systir sem ég gat dundað mér við að kvelja þegar mér leiddist,

nú er hún flúin upp í sveit.

Svo í staðin á ég eiginkonu, sem ég passa mig á að halda vel við, eins og góður garðyrkjumaður fallegri grasflöt.
**************************


(alltaf nýslegin)

Nafnlaus sagði...

Voðalega er mín eitthvað djúp núna....díses....ég vil bara fá mitt IDOL á föstudagskvöldum og ekkert rugl.....híhíhí

Nafnlaus sagði...

Golden Oldie!!!

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill og skemmtilegar pælingar. Ég er sammála þér í því að við viljum alltaf bara meira og meira, erum aldrei ánægð.

Nafnlaus sagði...

hehe ég man einmitt eftir því þegar þú vildir gefa ömmu gsm síma,, því hún var aldrei heima :) en hún var örugglega fegin að vera utan þjónustusvæðis því annars heði síminn ekki stoppað hehe

knús Þóra frænka

Miss Marsibil sagði...

djö.. er ég þakklát fyrir að þú valdir enskuna.. þetta er það skemmtilegasta sem ég veit þessa dagana.. hádegi á föstudegi heima hjá mér - bull og vitleysa og mikið hlegið - TÆR SNILLD