fimmtudagur, mars 23, 2006

Allt í fína frá Kína

Jæja, það hefur verið töluvert að meðtaka hér í nýja landinu. Í morgun var fyrsta kennslustundin og hún var skemmtileg. Við lærðum hrafl í kínversku, svo sem að heilsa og að við værum skiptinemar í háskólanum í Shanghai. Einnig lærðum við nokkur tákn en mikið asskoti er erfitt að skrifa þau, eða teikna, öllu heldur.

Veðrið hefur batnað mikið síðan við komum. Við vorum köld inn að beini fyrstu dagana en við erum aðeins farin að þiðna. Það var þó kalt í kennslustofunni í morgun og jafnvel kaldara en úti. Þið getið fylgst með veðrinu hér á slóðinni: http://uk.weather.com/weather/local/CHXX0116?x=16&y=4

Í gær fórum við á lögreglustöðina að láta skrá okkur. Við áttum að gera það um leið og við komum og fengum þvílíkar skammir að launum. Við vorum ríflega þrjá tíma á ískaldri lögreglustöðinni og þurftum að borga 100 Rmb á mann í sekt.

Kínverjar þola greinilega meiri kulda en við Íslendingar. Til dæmis á lögreglustöðinni var ískalt en þó galopið út.

Strákarnir eru algjörir kanar. Þeir vilja helst bara Kentucky, Pizza Hut eða Mcdonalds. Við höfum samt bragðað kínverskan mat, misgóðan. Ég á einna erfiðast með kaffiskortinn. Maður fær te á hverju götuhorni en ekki kaffi. Kaffið er auk þess nokkuð dýrt hérna, allavega miðað við annað.

Marteinn segir að hér í Shanghai sé eintómt Arnlaugsfólk! Fólk sem kallar hvert á annað afar hátt. Ég skil ekkert hvað hann er að fara...........

Birgir keypti sér nýjan hátæknisíma og hefur tekið einhverjar myndir á hann. Þær má sjá hér: http://public.fotki.com/birgirb/

Jæja nú er ég búin að gefa ykkur örlítinn smjörþef af þessu eða varla það og vonandi kemur meira síðar.

Kveðja frá Shanghai.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ætli 100Rmb sé mikið í íslenskum krónum? Jónína gastu ekki beitt þinni frægu röksnilli til að lempa löggutetrin? Þú verður nú að fara að ala þessa samferðamenn þína betur upp, amerískt skyndifæði í Kína, fussum svei! Vita þeir hverslags ket er í borgurunum hjá þeim? (mjá, voff) Nei, nú eru það bara núðlur og vorlaukar sem blífa. Hvernig var það var ekki föðurlandið með í för eða komst það ekki í gegnum vigtun? , mér sýnist ekki veita af þarna í borg kuldans. Góðar stundir, bíð spennt eftir meiru, Heiðrún

Nafnlaus sagði...

svo þú líður bara skort þarna í Kína, held að það sé nú bara betra að vera hér heima, alltaf nóg á könnunni hér :o) - en, svakalega gaman að heyra frá þér og skoða myndirnar hans Bigga, dúdde mæj mér bara brá þegar ég sá þig með öllu þessu fræga fólki en áttaði mig svo á því að þetta voru vaxmyndir þegar ég sá að HULK hafði þig í hendi sér.....
En þetta með kuldann þá er hann búinn að vera MJÖG kaldur hér á Bifröst undafarna daga þannig að vælið í þér hefur engin áhrif á mig.
Þú veist vonandi að það er hægt að stilla kommentin í blogspot þannig að þú færð þau beint í pósti þannig að Drengur þurfi ekki að póstleggja hvert einasta komment

kveðja úr kuldanum, Anna

Nafnlaus sagði...

Ég tek nú undir með Heiðrúnu frænku og ég furða mig á því að eldheit sannfæring þín og rómuð rökfesta ásamt allgóðri þekkingu á bæði íslenskum og alþjóðlegum lögum hafi beðið lægri hlut fyrir kínverskum löggudruslum sem í þokkabót eru varla nema 1,50. Frábærar myndir, hvernig var íslenska pastað? Bráðnaði ekki Beckham þegar þú tókst á honum? Þú hefur greinilega ekki hætt að reykja í reisunni, hm.. Steinunn I, alltaf sami fasistinn

Nafnlaus sagði...

Nú eru þær komnar og farnar frænkurnar og kláruðu ekki einu sinni fiskinn. Voru ekki nema fjórar en áttu von á liðsauka að norðan. Sleppti skemmtiatriðum og leynigesti af óviðráðanlegum ástæðum. Steinunn auðvitað laaang seinust, leggur af stað á morgun.
Láttu strákana eiga sig með ameríska ruslfæðið. Hugsaðu um að skemmta þér sjálf, og það er allt í lagi að borga vel fyrir GOTT kaffi.
Kveðjur frá Helgu