fimmtudagur, júní 01, 2006

Frábært ferðalag


Ferðalag okkar til Peking og Xi´an var í einu orði sagt frábært. Fengum mjög gott veður, sól og hita. Hitinn hefði, fyrir mína parta, stundum mátt vera heldur minni en ísbjörnin er óðum að venjast og endar sjálfsagt sem eðla.

Sáum marga og merkilega hluti svo sem Terracotta hermennina og hestana sem fundust árið 1974 og eru talin eitt af átta mestu kraftaverkum heims, enda einn merkasti fornleifafundur heims. Það voru sjö bændur sem fundu þetta þegar þeir voru að grafa fyrir brunni. Þeir eru þrír eða fjórir enn á lífi og einn situr og áritar bækur þarna í safninu. Ég fjárfesti vitanlega í einni slíkri.

Við skoðuðum einnig "Mausoleum of Emperor Qin Shi Huang" sem er á heimsminjaskrá enda afar merkilegt. Vissuð þið að fyrir 2.200 árum voru vatnsleiðslur í Kína? Svo hættir okkur vesturlandabúum til að líta niður á þetta fólk og hlæja að því! Við Íslendingar vorum enn í torfkofum fyrir 100 árum síðan og sóttum vatn í brunna!
Við vorum í einn sólarhring í Xian sem er alveg nokkrum sólarhringum of lítið. Ég hlakka til að koma þarna aftur, hvenær sem það nú verður.

Við sáum líka Famen Temple sem er þekkt fyrir að geyma fingurbein Sakyamuni sem fann upp Búddismann. Borgarmúrarnir eru líka einstakir en þeir eru um 14 km að lengd og voru byggðir á Ming tímabilinu.

Sáum Bjölluturninn (Bell Tower) bara að utan og gafst ekki tími til að fara inn. Hann var upphaflega byggður á 14. öld og er víst mikil upplifun að skoða hann. Það verður gert næst.

Það var þreytt kona sem kom heim til Shanghai með flugi í gær, en afskaplega ánægð með þessa frábæru ferð.

Hef sett inn tvær möppur með myndum en ekki hefur gefist tími til að setja texta við þær, það vantar fullt af myndum reyndar þar sem ég kláraði kortið og á eftir að fá myndir frá hinum.

Zaijian,
Jónína

Engin ummæli: