miðvikudagur, apríl 11, 2007

Páskar

Þetta voru heldur viðburðarríkir páskar. Skipulagið var á þann veg að ég ætlaði að hafa það huggulegt á Akureyri, lesa námsefnið og slappa af. Sú varð ekki raunin.

Á fimmtudag, skírdag, var brunað austur á Vopnafjörð og þar tekin ein fermingarveisla. Berglaug Petra, hin bráðmyndarlega dóttir Þórdísar (föðursystir Drengs) og Garðars var fermd þennan dag. Þetta var svakalega fín veisla með dýrindis fæðu og drykk. Ég lenti reyndar í afar pínlegri reynslu þar sem gjöfin frá mér innihélt aðeins tóman skartgripakassa. Það voru auðvitað allir veislugestirnir sem fylgdust með þegar pakkarnir voru opnaðir og ekki mjög skemmtileg augnaráð sem mættu mér úr öllum áttum. Þetta er í síðasta sinn sem ég læt pakka inn gjöf í búðinni!
Nú er bara að sjá hvort verslunareigandinn standi sig áður en ég greini nánar frá málinu í smáatriðum.

Frá Vopnafirði lá leiðin norður á Þórshöfn þar sem beið mín uppbúið rúm og alkunn gestrisni á Hóteli Sollu. Drengirnir skoðuðu skemmtanalífið á Þórshöfn en ég var tiltölulega róleg enda kvefið ekki alveg að gefa sig. Það var gott að vera á Þórshöfn hjá Sollu, stjanað við mann í hvívetna og skemmtilegur félagsskapur. Hitti mann og annan, fékk gott kaffi hjá Birnu og afmælisveislu hjá Diddu, hvort tveggja í fylgd Heiðrúnar.

Drengirnir gerðu hlé á djamminu til að skreppa út á Langanes. Mér skilst að það hafi verið hin besta ferð í fylgd Reynis Atla og Ágústar Marinós.

Aftur var haldið í höfuðstað Norðurlands á laugardag. Fengum engin páskaegg þar sem akureyskir innkaupastjórar höfðu ekki gert sér grein fyrir því að bæjaryfirvöld voru búin að bjóða öllum landslýð á skíði, í leikhús og aðra menningu í þessum mikla páskaskíðamenningarbæ.

Á laugardagskvöld var okkur boðið í mat til þeirra heiðurshjóna Esterar og Árna. Þar var Drengur í hlutverki yfirkokks og eldaði þennan líka fína humar. Þetta var afar velheppnað kvöld, góður matur og skemmtilegt spjall.

Á páskadag voru piltar slappir einhverra hluta vegna en Drengur þó sínu verri en Stefán. Þeir voru þó farnir að hressast seinnipartinn enda eins gott því fyrir dyrum stóð eldamennska á ótal veisluréttum.

Við erum nefnilega öll ansi miklir matgæðingar og því var úr vöndu að ráða þegar velja átti páskamatinn. Það varð því úr að keypt var sýnishorn af nokkrum tegundum. Þeir elduðu svo drengirnir forrétt úr fasana, önd, hörpuskel og akurhænu. Þetta var með betri forréttum sem ég hef smakkað. Þegar búið var að borða forréttinn var hann látinn setjast í maganum í nokkra stund áður en hafist var handa við aðalréttinn. Þar var um að ræða kengúrukjöt með rótargrænmeti, villisveppasósu og kartöflum. Þetta var líka með betri mat sem ég hef fengið.
Í eftirrétt var svo súkkulaðikaka með ís og páskaeggi. Já.... við fengum sitt páskaeggið hvert.... af minnstu gerð.
Ég held að mér sé óhætt að segja að þessi páskadagur hafi verið með þeim betri sem gerast.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jónína, smakkaðir þú ekki vín þessar helgi, ja ég bara spyr?

Nafnlaus sagði...

úff, maður varð bara þreyttur á að lesa um allt þetta ferðalag. En mér finnst skrítið að á Akureyri fáist fasani, akurhæna og kengúrukjöt en ekki páskaegg ! Kannski merki um breytta tíma.

Nafnlaus sagði...

Fílahjörðin eins og hún er nefnd í dag þríeikið mikla...kveðja drengsson nr 1 eða er ég nr 4

Nafnlaus sagði...

Halló,, ég held að það sé alveg komin tími á þinn yndislegi sonur hringi og bjóði frænku sinni í mat :) ég fékk bara vatn í munninn við lesturinn :)

Knús Þóra frænka

Nafnlaus sagði...

ég held nú að það sé alveg útséð að þetta át hefur gjörsamlega gert út af við þig - alla vega höfum við ekki fengið að njóta nærveru þinnar í tímum undanfarna viku og við söknum þín SVO mikiððððððððð

Nafnlaus sagði...

Ég skrifaði athugasemd hérna í dag en hún kom ekki inn, ég reyni þá bara aftur:

Takk kærlega fyrir mig, þetta voru eftirminnilegustu páskar lífs míns.

Jónína Ingibjörg sagði...

Sóley: Jú ég smakkaði rauðvín en sé það núna að ég hefði betur fengið mér koníak!

Kollý: Þetta var frábær ferð en ég sé það núna að þegar maður fer til Akureyrar þarf maður að hafa vistir með sér.

Gaui: Ég má hundur heita ef fílahjörðin endurtekur ekki leikinn að ári. Kannski fjölgar í hjörðinni?

Þóra: Þegar maður á í nánu sambandi við flugmann þá er manni nú í lófa lagið að bera sig eftir björginni ;)

Anna: Maður skyldi aldrei fara í ferðalag með flensuskít í farangrinum..... nema maður hafi koníak ;)

Drengur: Takk sömuleiðis fyrir frábæra páska

Nafnlaus sagði...

Gott að þú hafðir góða páska og ekkert sem toppar góða kokka og gott Rauðvín:) En já þú hefðir málað bæinn rauðan eftir Gott Koníak staup eða tala nú ekki um yndislega Irish Coffy verður bara að fara koma á skagan þá skal ég lofa þér að góðar veigar verða á mínum borðum:) Annars bara knús til þín kveðja Brynja frænka á skaganum:)

Nafnlaus sagði...

Til lukku með daginn í gær, kæra frænka :)

Knús Þóra frænka

Magdalena sagði...

Jæja betra seint en aldrei, er netlaus í sveitinni! Til hamingju með afmælið á laugardaginn Nína mín.

kiss
Madda

Nafnlaus sagði...

Það gefur auga leið að öllum páskafríum héðan af verður eytt á Langanesi....... Það eru fleiri hótel þar en Solla!

Nafnlaus sagði...

Innilegar Hamingju óskir með Afmælið jónína mín knús kveðjur Frá Brynju og co á skaganum:)