sunnudagur, maí 13, 2007

Kosningavaka Hamragarða


Brjálað stuð í Hamragörðum 407. Hér stendur yfir kosningavaka og stemningin er gríðarleg. Hér höfum við setið, ég og stjórnsýslurétturinn og átt í mjög svo nánu sambandi með kosningasjónvarpið á kantinum. Það reyndist okkur ekkert erfitt að hunsa júróvisjón og stunda heita ástarleiki, málefnalega, lögmæta, með miklu meðalhófi þar sem jafnræðis var gætt í hvívetna. Það reynist mér heldur erfiðara að láta Alþingiskosningarnar framhjá mér fara.

Sú herkænska Sjálfstæðisflokksins að sitja aðgerðarlitlir á kantinum á meðan Framsókn tók við kjaftshöggum fyrir það sem miður fór við stjórnina, virðist vera að skila tilætluðum árangri. Það er sem sagt greinilegt að þeir sem kjósa sjálfstæðisflokkinn er nákvæmlega sama um biðlista eldri borgara, geðsjúkra og aðra sem minna mega sín. Framsóknarmenn hafa greinilega greindara fólk í kjósendaliðinu sem refsar fyrir slælegan árangur. Vissulega er ég ánægð með refsingu framsóknarmanna á sínum flokki en ég hefði bara viljað að sjálfstæðismenn fengju álíka refsingu.

Hvað um það. Ég á vini á báðum stöðum sem að bíða mín í röðum ..... til að hella yfir mig skömmum væntanlega. Ég er sátt.... og Sóley, Þú mátt gráta við öxlina á mér :)

Ég horfi hins vegar björtum augum til framtíðar. Ég hlakka til að komast beint inn á elliheimilið þegar ég þarf á að halda. Ég hlakka til þegar Hulda fær fyrir hjartað og kemst í aðgerð "med det samme". Ég hlakka líka til þegar sá ómissandi hópur sem vinnur skítverkinn verður metinn að verðleikum og menn gera sér grein fyrir því að til þess að reka banka með himinháum hagnaði þarf einhver að skúra, einhver að skipta um ljósaperur og vissulega þarf einhver að gæta barnanna og hugsa um afa og ömmu.

Jæja nú er stjórnsýslurétturinn orðinn æfur af afprýðisemi og farinn að hóta falli.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eftir nýjustu tölur, afber ég ekki lengur á spennuþáttinn. Kosningavöku í Miðgarði 4 er frestað til morguns. Aðrir geta talið alla nóttina en ætla ég að vakna til raunveruleikans, útsofin.

Nafnlaus sagði...

Ég er langt frá því að vera grátandi Jónína mín, enda framsóknarmenn vanir ýmsu. En ég býð hinsvegar spennt eftir að allir biðlistar hverfi. Ætli það sé hægt að skrá sig á biðlista eftir þingsæti humm!

Nafnlaus sagði...

Þá blasa staðreyndirnar við. Engin kona á þingi fyrir Norðvesturland!
Það er ekki um annað að gera en flytja... Hvaða öld og hvurslags þjóð er þetta eiginlega?
-Sóley, þú mátt örugglega bíða róleg eftir þingsætinu!!!

Nafnlaus sagði...

Jónínu á þing!!!

Nafnlaus sagði...

Sko Jónína - þegar maður kýs rétt er maður í þeirri stöðu að geta hrósað sigri. Ég og mínir menn erum alltaf sigurvegarar - og einhverjir verða að tapa. Kænskan er að láta Framsókn taka skammirnar. Svo held ég að þú sért of gömul til að vera kommi. Held að sé rétt að taka eina rauðvín eða tvær yfir léttu pólitísku spjalli þegar þú ert búin í prófum. Var ég búin að segja þér að ég er búin í prófum:)

Nafnlaus sagði...

Ein spurning til þín!
Ef Kolbrún Halldórsdóttir yrði heilbrigðismálaráðherra heldurðu biðlistar í heilbr.kerfinu minnki. Eða ef Ögmundur yrði félagsmálaráðherra að þá yrði betur hlúð að gamla fólkinu og þeim sem minna mega sín. Ég held stundum að kommar gleymi að hugsa.

Nafnlaus sagði...

Þú aftur:
Ef þú ræður mig til að skúra og ég skúra aldrei neitt. Fæ ég þá að vinna hjá þér endalaust?
Ég held þú sért búin að læra yfir þig!

Nafnlaus sagði...

Sammála Dreng, Jónínu á þing! Veit ekki um neinn sem ég treysti betur fyrir stjórn þessa lands. Heilsteypt og réttsýn, lögfróð og lagleg.
Hér eru myndir sem þú ættir að skoða næst þegar þú lítur upp úr skruddunum: http://www.flickr.com/photos/valkyr