miðvikudagur, apríl 02, 2008

Sakamál

Hvernig stendur á því að ríkissjónvarpið sendir út breska sakamálaþætti eftir tíufréttir?
Ég hélt það væru bara miðaldra kerlingar sem horfðu á þess háttar þætti. Þær þurfa að fá lúrinn sinn og geta ekki vakað fram undir miðnætti.

Talandi um miðaldra kerlingar þá var ég að staga í fötin mín í kvöld. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að ég get með engu móti þrætt nál, svo sjóndöpur er ég orðin. Það var með herkjum að mér tækist það með hjálp sérstaks þræðingarapparats. Öðru vísi mér áður brá!

Það hlýtur að vera erfitt að vera auglýsingamaður og þurfa að koma með nýjar og ferskar hugmyndir látlaust. Mér datt þetta í hug þegar ég opnaði vefgáttina og við mér blasti vísir.is. Sú síða er nú upphafssíða hjá mér þar sem ég lét gabbast þegar mér var lofað dýrindis vinningum að launum. Ekki man ég lengur hvenær átti að draga um vinningshafa né hvar þeir ætluðu að birta nöfnin en engin merki sé ég um það núna að þessi leikur hafi nokkurn tímann átt sér stað.

Góðar stundir

1 ummæli:

Steinunn sagði...

Svona er að vera ráðsett frú í innbænum, sjóndapur sjónvarpseftirlitsmaður. Hvernig væri að hressa sig við og skella sér á Sigló um helgina?