mánudagur, febrúar 09, 2009

Vinveitt yfirtaka

Sæl

Alveg er það ótrúlegt að þegar mest er að gerast í samfélaginu þá er andinn víðs fjarri.


Mér hefur dottið ótrúlega margt í hug sem færa mætti til bókar en ég gleymi því alltaf jafnharðan. Svona er maður nú orðinn gamall og kalkaður. Ég þyki ekki gömul í dag þegar meðalævi íslenskra kvenna er um 80 ár. Um miðja 19. öld var meðalævi kvenna 38 ár og því væri ég að líkindum dauð eða í besta falli orðin öldruð ef nú væri árið 1850.






Nú eru allir hættir að blogga, eða sko, kannski ekki ALLIR en vissulega MARGIR. Ég hef hugsað mikið um orsökina og allt í einu rann upp fyrir mér ljós:

Snjáldurskinnan hefur tekið völdin!

Datt mér fyrst í hug að um óvinveitta yfirtöku hefði verið að ræða þar sem ýmsir eru eflaust ósáttir við hana. Það verður þó að segjast að yfirtaka samfélags sem byggir á vinasamböndum getur varla talist annað en vinveitt.

Ég veit ekki hvað mér á að finnast um Flettismettið. Að sumu leyti finnst mér þetta mjög sniðugt apparatus en að öðru leyti afar heimskulegt. Sjálfsagt er þetta afar sniðugt kerfi sem stundum er notað á heimskulegan hátt. Það er með þetta eins og svo margt annað að hópsálin nær yfirhöndinni. Allir skulu dregnir í dilka og innstu hjartans mál og tilfinningar opinberaðar. Að auki skal ræða við vinina fyrir allra augum. Mín kaldlynda kynslóð á dulítið erfitt með það. Alveg á sama hátt og hún á erfitt með að setja fram sín hjartans mál á veraldarvefinn í því formi sem gert er hér og nú. Þar með er komin skýring, að hluta til, á ástæðum þess hve lítið er hér skrifað.

Lifið heil

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég á í innri baráttu varðandi Yfirborðsbeykið. Sér í lagi hefur mér þótt þykja nokkuð varasamt að einhver erlendur gagnagrunnur, í Guð-má-vita hverra eigu, sem getur gengið kaupum og sölum, geymir öll persónuĺeg tengsl manns og samskipti.

Auðvitað á maður ekki að taka þátt í þessu...

Jónína Ingibjörg sagði...

http://visir.is/article/20090210/FRETTIR02/23833943

Nafnlaus sagði...

Ég er blendin í trúnni á facebook en stórhrifin að íslenskun þinni á orðinu.

Jónína Ingibjörg sagði...

Kæra Steina
Get því miður ekki tekið heiðurinn af þessari íslenskun. Veit ekki hver á heiðurinn en þætti gaman að vita.

Nafnlaus sagði...

Ég lít á þetta sem góða samskiptartæknisíðu, mér finnst frábært að heyra frá fólki sem ég annars heyri sjaldan eða aldrei frá, eins og frændfólki og gömlum vinum og bekkjarfélögum. Vita hvernig hefur ræst úr þeim, hvað þau eru að gera og hvernig þeim vegnar ! Ef það er eitthvað sem ég þarf að segja sem ég vil ekki að allir geta séð er hægt að senda skilaboð, eða nota annað eins og msn eða síma;)
Hvað varðar eins og blogg eða að fólk er að opinbera persónulegt líf sitt, snýst þetta ekki frekar um að fólk er að fá útrás fyrir því sem berst innra með þeim, leyfa fólki að fylgjast með og að það komi frá manni sjálfum í stað þess að fólk er að fá fréttir frá jafnvel þriðja eða fjórða aðila og þar með að koma í veg fyrir miskilning og/eða rangar upplýsingar og sögusagnir. Og svo ekki síður í þeirri von að manns barátta eða hugleiðingar geti hjálpað öðrum.... Þá er tilgangnum svo sannarlega náð að mínu mati !!
þín opna uppáhaldsfrænka : *

Nafnlaus sagði...

Þessi gögn á Trýnu eru nú varla stórmerkileg þótt þau hafi mikið tilfinningalegt og sögulegt gildi. Það er hægt að nota þau til að búa til einhverja markhópa fyrir auglýsingar og sölumennsku en varla neitt skeinuhættara en það? Og þó, atvinnurekendur fletta jú þarna upp til að skoða umækjendur og suma er hægt að draga í pólitíska dilka, til góðs eða ills. En síðast var pælt 9. febrúar og nú er 27. Kominn tími á aðra hugleiðingu?